Íslendingaliðið Reading hefur fest kaup á Emerse Fae frá Nantes fyrir 2,5 milljónir punda, en það er það mesta sem að félagið hefur borgað fyrir leikmann. Fae er 23 ára miðjumaður frá Fílabeinsströndinni. Íslensku landsliðsmennirnir Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson leika með Reading.
„Við höfum fylgt lengi með Fae og okkur finnst við vera að gera góð kaup miðað við hversu dýrir góðir leikmenn eru í dag," sagði Nick Hammond, yfirmaður knattspyrnumála hjá Reading. „Hann elskar að sækja fram völlinn og mun færa hinum miðjumönnunum okkar eitthvað nýtt."