Erlent

Kalla eftir samstöðu til að draga úr mengun

Mótmæli vegna fundar átta stærstu iðnríkja heims.
Mótmæli vegna fundar átta stærstu iðnríkja heims. MYND/AFP

Kanadamenn hafa kallað eftir samstöðu meðal átta stærstu iðnríkja heims um að draga verulega úr losun gróðurhúsaloftegunda. Þetta kom fram í máli Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, á fundi átta stærstu iðnríkja heims í Berlín í dag. Hann telur þó ólíklegt að Kanada nái að draga úr mengun í samræmi við Kyoto bókunina.

Þjóðverjar hafa lagt mikla áherslu á að iðnríkin átta komist að einhvers konar samkomulagi um samdrátt í losun gróðurhúsaloftegunda. Hingað til hafa Bandaríkjamenn ekki tekið undir sjónarmið Þjóðverja og hafa frekar viljað fara sínar eigin leiðir án alþjóðlegra skuldbindinga.

Ólíkt nágrönnum sínum í suðri hafa Kanadamenn lýst yfir áhuga á einhvers konar samkomulagi. Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, sagði meðal annars í dag að Kanadamenn ættu margt sameiginlegt með Þjóðverjum í afstöðu sinni til þessa málaflokks. „Ég og Merkel erum á sömu skoðun í þessu máli. Öll lönd verða að skuldbinda sig til að draga verulega úr losun gróðurhúsaloftegunda."

Á sama tíma ítrekaði Stephen þó fyrri yfirlýsingar kanadískra stjórnvalda um að ómögulegt væri fyrir Kanadamenn að draga úr mengun í samræmi við Kyoto bókunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×