Innlent

Björn fellur niður um eitt sæti vegna útstrikana

MYND/Pjetur

2514 manns, sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavíkurkjördæmi suður, strikuðu yfir nafn Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra og eru það 18,16 prósent kjósenda flokksins í kjördæminu.

Þetta þýðir að Björn færist niður eitt sæti á listanum og verður þriðji þingmaður flokksins í kjördæminu í stað þess að vera annar. Illugi Gunnarsson, sem er nýr á þingi, fer upp fyrir Björn í annað sætið. 20 prósent kjósenda þurftu að strika nafn Björns út til þess að hann félli niður um tvö sæti á listanum.

Áður hafði legið fyrir að Árni Johnsen, flokksbróðir Björns, færðist niður um eitt sæti í Suðurkjördæmi vegna útstrikana en þar strikuðu rúmlega 20 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins nafnið hans út í kosningunum á laugardag. Hins vegar þurfti 25 prósent til þess að fella hann um tvö sæti.

Kjörstjórn í Reykjavíkurkjördæmi suður ákvað að birta nöfn þeirra sem fleiri en 50 strikuðu yfir í öllum flokkum. 182 strikuðu yfir nafn Kolbrúnar Halldórsdóttur, Vinstri - grænum, 141 yfir nafn Ingibjargar Sólrúnar Gíslasdóttur, formanns Samfylkingarinnar, 119 yfir nafn Ástu Möller, Sjálfstæðisflokki, 97 yfir nafn Marðar Árnasonar, Samfylkingunni, og 50 yfir nafn Jónínu Bjartmarz, Framsóknarflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×