Innlent

Risessan leitar að pabba sínum

Leit risessunnar að föður heldur áfram í dag en faðir hennar, risinn, hefur gengið berserksgang um borgina. Risessan hóf daginn á því að fara í sturtu áður en hún hélt af stað á nýjan leik.

Risessan sem er átta metra há risabrúða hóf leit sína að föður sínum í gær en sá er heldur geðstyggur risi sem brást illa við þegar leiðangursmenn frá Fornleifastofnun Frakklands vöktu hann upp fyrir skömmu af hundrað ára dvala undir Reykjavíkurborg. Hann gekk þá berserksgang um borgina og eyðilagði bíla með hnífapörunum sínum.

Risessan fór á fætur í morgun klukkan hálf ellefu og byrjaði daginn á að fara í sturtu. Síðan lagði hún af stað frá Hafnarbakkanum þar sem hún gisti í nótt en hún freistar þess að ná að tæla föður sinn af landi brott.

Í þessum töluðu orðum er risessan að nálgast pabba sinn en það gerist líklega á Fríkirkjuvegi og þaðan fara þau feðgin niður á Lækjartorg þar sem þau hvílast. Þau leggja svo af stað frá Lækjartorgi klukkan þrjú, fara upp Hverfisgötu, Snorrabraut og svo niður á Sæbraut þaðan sem leið þeirra liggur að Hafnarbakkanum. Þar verða þau klukkan fimm í dag þar sem Risessan ætlar að reyna að lokka föður sinn með sér á haf út og bjarga þannig borgarbúum frá frekari skemmdum.

Risessan og risinn eru hluti af ævintýri götuleikhússins Royal de Luxe sem hingað er komið á Listahátíð í Reykjavík og frönsku menningarkynninguna Pourquoi Pas?

Þess má geta að bílastæðum í gönguleið Risessunar og risans verður lokað tímabundið á morgun. Bílar sem lagðir eru þar ólöglega verða fjarlægðir á kostnað eigenda sinna. Gönguleiðina má finna á artfest.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×