Innlent

Vegagerðinni gert skylt að mæla mengun við Gjábakkaveg

MYND/365

Umhverfisráðherra hefur staðfest úrskurð Skipulagsstofnunar frá því í maí 2006 varðandi mat á umhverfisáhrifum Gjábakkavegar. Telur ráðherra að vegurinn muni ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Vegagerðinni er þó gert skylt að gera mælingar á ákomu loftaðborinnar köfnunarefnismengunar áður en framkvæmdir hefjast.

Úrskurður Skipulagsstofnunar um leyfi til lagningar á Gjábakkavegi var kærður á þeim forsendum að vegurinn myndi hafa umtalsverð áhrif á umhverfið. Meðal annars var á það bent að vegurinn lægi of nálægt vatnstökustað og samræmdist ekki ákvæðum um verndun Þingvallavatns.

Í úrskurði Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, kemur fram að hún telji fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir Vegagerðinnar muni draga úr eða koma í veg fyrir umhverfisáhrif. Því sé ekki fallist á rök kæranda að vegurinn muni hafa mikil umhverfisáhrif. Ráðherra staðfestir því úrskurð Skipulagsstofnunar með þeim viðauka að Vegagerðinni verði gert skylt að gera mælingar á ákomu loftaðborinnar köfnunarefnismengunar áður en framkvæmdir hefjast og í að minnsta kosti fimm ár eftir að framkvæmdum lýkur.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×