Innlent

Hljóðfæri úr drasli vesturlandabúa á Listahátíð

Einn meðlimur hljómsveitarinnar með hljóðnema úr við og frumstætt hljóðblöndunartæki.
Einn meðlimur hljómsveitarinnar með hljóðnema úr við og frumstætt hljóðblöndunartæki.

Hljómsveitin Konono N°1 heldur tónleika í porti Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsinu í kvöld. Hljómsveitin er frá Kinshasa í Kongo og hlaut verðlaun sem besti nýliðinn í heimstónlist hjá breska ríkisútvarpinu BBC í fyrra. Þeir spila einnig á nýjustu plötu Bjarkar Guðmundsdóttur, Volta.

Hljómsveitin er þekkt fyrir heimatilbúinn tæknibúnað sem hefur átt mikinn þátt í að þróa sérstæðan stíl hljómsveitarinnar. Hljóðkerfið er meðal annars mjög frumstætt og að mestum hluta búið til úr gömlu dóti sem Vesturlandabúar hafa skilið eftir í landinu.

Það má því segja að hljómsveitin hafi nánast fyrir slysni komist í raðir þeirra bestu í tilraunatónlist, framúrstefnurokki og raftónlist segir í frétt á vef Listahátíðar.

Meðlimir hljómsveitarinnar eru 11. Þar af eru þrír sem spila á raflikembé, þrír söngvarar, ásláttarleikarar og dansarar. Raflikembé er heimatilbúið likembé þar sem hljóðnemar úr seglum frá gömlum bílahlutum hafa verið tengdir við hljóðfærið og það magnað upp.

Ásláttarleikararnir spila bæði á hefðbundnar trommur frá Kongó og einnig potta og bílahluti og annað það sem nýtilegt þykir sem ásláttarhljóðfæri.

Tónleikarnir hefjast í Listasafninu klukkan 22 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×