Innlent

Menn víða sammála Eiríki á Vesturlöndum

Víða á Vesturlöndum eru menn sammála Eiríki Haukssyni söngvara um að austurblokkin svonefnda hafi með sér óeðlilegt samstarf við atkvæðagreiðlu í Júróvision keppninni. Eiríkur lýsti því við Mafíu og sagði að að lög frá Mið- og Vestur-Evrópu ættu ekki lengur möguleika í keppninni.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að íslenska lagið komst ekki upp úr undankeppninni og sama er að segja um norska lagið, sem þótti sigurstranglegt og hið hollenska, svo dæmi séu tekin.

Eiríkur sagði þegar úrslitin lágu fyrir að löngu væri orðið tímabært að breyta fyrirkomulagi keppninnar þar sem augljóst væri að ríki í austurblokkinni stæðu saman óháð listrænu mati.

Norðmenn sem einnig féllu úr undankeppninni í gærkvöldi segja að nú verði að breyta reglunum. Í Aftenposten í dag er fjallað um hvernig keppnin sé að skiptast milli Austur- og Vestur-Evrópu þar sem Balkanskaginn hafi betur með svokallaðri blokkaratkvæðagreiðslu. Við þessari þróun verði að bregðast.

Dönsku blöðin segja sömuleiðis að austurblokkin hafi jarðað danska lagið sem ekki komst áfram í gær. Í sama streng taka Hollendingar og hollenskt dagblað hvetur landsmenn til að sniðganga keppnina annað kvöld með öllu og horfa á eitthvað annað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×