Innlent

Uggvænleg tíðindi fyrir neytendur

Höskuldur Kári Schram skrifar
MYND/SJ

Almennar hækkanir á mat- og drykkjavörum í síðasta mánuði eru uggvænleg tíðindi fyrir neytendur að sögn talsmanns neytenda. Hann segir nauðsynlegt að veita verslunum varanlegt aðhald til þess að koma í veg fyrir að þær hirði ávinning neytenda af skattalækkununum.

„Við verðum að passa okkur á því að vera ekki alltaf að laga málin með átaki til þess eins að allt fari í sama farið seinna," sagði Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, í samtali við Vísi. „Ég vil ekki fullyrða að verslanir séu að hirða ávinning neytenda af skattalækkunum en þetta eru uggvænleg tíðindi."

Samkvæmt útreikningum Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs hafa mat- og drykkjavörur hækkað almennt um 1,3 prósent í verði frá því í síðasta mánuði.

Matvæli lækkuðu í marsmánuði í kjölfar skattalækkana stjórnvalda eða um allt að 11 prósent í einstökum lágvöruverslunum. Svo virðist nú sem þær lækkanir séu að einhverju leyti byrjaðar að ganga til baka sé miðað við vísitölu neysluverðs.

Gísli segir nauðsynlegt að auka eftirlit með verslunum til að tryggja þann ávinning sem skattalækkanirnar áttu að skila til neytenda. „Það þarf að veita verslunum varanlegt aðhald. Hugsanlega þarf einnig að styrkja verðlagseftirlit og auka eftirlit með verðmerkingum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×