Innlent

Vinna gegn vaxandi manneklu meðal sjúkraliða

Höskuldur Kári Schram skrifar
MYND/GVA

Endurskoða þarf starfs- og ábyrgðarsvið sjúkraliða og menntun eigi að vera mögulegt að vinna gegn vaxandi manneklu í stéttinni. Þetta var niðurstaða fyrsta fundar starfsnefndar sem leita á leiða til að fjölga sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum. Yfirhjúkrunarfræðingur hjá Landlæknisembættinu segir einnig nauðsynlegt að endurskoða launamál þessara stétta.

„Við teljum rétt að beina þeim tilmælum til heilbrigðisráðuneytis að það hugi að launamálum þessara stétta," sagði Anna Björg Aradóttir, yfirhjúkrunarfræðingur hjá Landlæknisembættinu, í samtali við Vísi. „Við skiptum okkur ekki almennt að launakjörum starfsstétta en þegar við sjáum að fólk er ekki að skila sér inn í störfin þykir okkur rétt að hugað sé að þessu málum."

Starfsnefndinni var komið á fót í aprílmánuði síðastliðnum en í henni sitja fulltrúar frá Sjúkraliðafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Landlæknisembættinu ásamt fulltrúum frá fjórum heilbrigðis- og menntastofnunum. Fyrsti fundur nefndarinnar var í gær en hlutverk hennar er að leita leiða til að fjölga sjúkraliðum og endurskoða verkaskiptingu og menntun hjúkrunarstétta.

Á fundinum var ákveðið að hefja vinnu við að endurskoða starfs- og ábyrgðarsvið sjúkraliða ásamt menntun þeirra og leiðir áfram í hjúkrunarnám. Í þessu skyni voru skipaðir tveir vinnuhópar, annar til að endurskoða starfs- og ábyrgðarsvið en hinn til að skoða menntunarmál sjúkraliða.

Anna segist búast við því að nokkrir mánuðir muni líða áður en nefndin skilar af sér fullmótuðum tillögum. „Þessi umræða er þess eðlis að hún tekur langan tíma. Þetta þarf að gerjast og það þarf að fara skipulega í alla endurskipulagningu. En vinnan er hafin og það er jákvætt," sagði Anna í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×