Innlent

Ekki ákveðið hvenær skipað verður í embætti ríkissaksóknara

Björn Gíslason skrifar

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur ekki ákveðið hvenær skipað verður í embætti ríkissaksóknara og segist eiga eftir að fara betur yfir umsóknir um embættið. Einn umsækjenda hefur dregið umsókn sína til baka.

Umsóknarfrestur um embættið rann út þann 27. apríl og sóttu fimm manns um það. Það voru hæstaréttarlögmennirnir Brynjar Níelsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson, saksóknararnir Egill Stephensen og Sigríður Friðjónsdóttir og Jón H.B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og fyrrverandi saksóknari efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra.

Allir umsækjendur voru boðaðir í viðtal í síðustu viku hjá dómsmálaráðherra sem skipar í embættið og þar kom fram að ákvörðun um það hver fengi embættið yrði tekin öðru hvorum megin við helgi. Á föstudag fengu svo umsækjendur skilaboð um það að frestað yrði að skipa í embættið um ótiltekinn tíma en engar frekari skýringar voru gefnar.

Á sunnudaginn tók svo Jóhannes Rúnar Jóhannsson þá ákvörðun að draga umsókn sína til baka. Í samtali við fréttastofu sagðist hann ekki myndu greina frá því hvers vegna hann hefði gert það.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði í samtali við fréttastofu nú eftir hádegið að hann hefði greint frá því á fundunum með umsækjendunum að ákvörðun um skipun í embættið yrði tekin öðru hvorum megin við helgi. Síðar hefði komið í ljós að fara þyrfti betur yfir umsóknirnar og það myndi hann gera til að fullnægja góðum stjórnsýslukröfum. Þá væru ýmis önnur verkefni sem hann hefði þurft að sinna. Aðspurður sagðist hann ekki geta sagt til um hvenær skipað yrði í embættið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×