Innlent

Kjósendur flýja Framsókn til Sjálfstæðisflokks

Lítil hreyfing er á kjósendum milli stjórnarflokkanna annars vegar og stjórnarandstöðuflokkanna hins vegar. Sjálfstæðisflokkurinn hirðir mest fylgi af Framsóknarflokknum og Vinstri grænir taka fylgi af Samfylkingunni, samkvæmt könnun Capasent Gallups.

Fyrirfram myndu flestir sennilega halda að baráttan fyrir komandi kosningar sé á milli stjórnarflokkanna annars vegar og stjórnarandstöðuflokkanna hins vegar. Vissulega er einhver hreyfing á kjósendum milli þessara fylkinga, en ef rýnt er í nýjustu könnun Gallups fyrir Morgunblaðið og RÚV, þá virðist baráttan um kjósendur fyrst og fremst standa milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra og einn af oddvitum Framsóknarflokksins hefur nýlega lýst því yfir að flokkurinn fari ekki í stjórn með fylgi undir tíu prósentum, en í fyrrnefndi könnun mælist hann með 7,6 prósent. En þar er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast, þótt bæði Samfylking og Vinstri grænir taki eitthvað fylgi af Framsókn.

Það er aftur á móti sláandi, að 28% þeirra sem ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn nú, kusu Framsóknarflokkinn í síðustu kosningum. Þannig að ef einhver er að ganga frá núverandi stjórnarsamstarfi dauðu með hrakförum Framsóknarflokksins, þá eru það kjósendur Sjálfstæðisflokksins.

Lítum þá á stjórnarandstöðuna. Þar hafa fylgistölur í könnunum verið að breytast að undanförnu. Tæplega 30 prósenta fylgi Vinstri grænna fyrir nokkrum vikum, er nú komið í 17,5 prósent og Samfylkingin er heldur að mjakast upp á við og mælist nú í rúmum 25 prósentum hjá Gallup. En þegar væntanlegir kjósendur þessara flokka eru skoðaðir sést að fyrir utan trygga kjósendur þeirra frá fyrri kosningum, eru Vinstri grænir að hirða mest af samfylkingunni.

Tæplega 20 prósent þeirra sem segjast ætla að kjósa Vinstri græna nú, kusu Samfylkinguna í síðustu kosningum. Á móti eru 11 prósent af núverandi stuðningsmönnum Samfylkingarinnar fyrrverandi kjósendur Vinstri grænna, þannig að gróflega má segja að nettó vinningur Vinstri grænna á Samfylkinguna sé 9 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×