Innlent

19 Rúmenum vísað úr landi í dag

Nítján Rúmenum var vísað úr landi í dag eftir að hafa dvalið í landinu án tilskilinna leyfa í þó nokkurn tíma. Að sögn lögreglu framfleyttu þeir sér með betli í miðbæ Reykjavíkur og sváfu á bekkjum í Hljómskála og Fógetagarðinum.



Lögreglan í Reykjavík hefur fengið fjölda ábendinga frá verslunareigendum og vegfarendum vegna Rúmena sem hafa verið að betla og leika á harmonikku í miðbæ Reykjavíkur undanfarnar vikur. Hópurinn samanstendur af sautján körlum og tveimur konum en engin börn eru með í för. Jón HB Snorrason varalögreglustjóri í Reykjavík segir fólkið hafa komið hingað til lands sem ferðamenn frá Kaupmannahöfn og Osló, ýmist með flugi eða ferjunni Norrænu.

10 manna hópur gisti á gistiheimili hjálpræðishersins frá 25. til 30. apríl. Að sögn forsvarsmanna hjálpræðishersins reyndi hópurinn ítrekað að koma fleirum inn á herbergin en leyfi voru fyrir. Þá hafi fólkið hnuplað mat sem var í sameiginlegu eldhúsi fyrir gesti gistiheimilisins. Síðustu daga hefur það haldið til í Hljómskála og Fógetagarðinum á nóttunni. Lögreglan handtók fólkið í gær og gisti það fangageymslur í nótt þar sem það fékk mat og húsaskjól.

Í dag var flogið með fólkið til Kaupmannahafnar og Osló. Nokkur þeirra áttu flugmiða til baka en kaupa varð flugmiða fyrir einhverja. Jón HB segir að lögreglan hafi heimildir fyrir því að fólkið hafi hrakist til landsins eftir að hafa komist í kast við lögin í Kaupmannahöfn og Osló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×