Innlent

Vilja fleiri göng á Vestfirði

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar

Landvernd mælir með að við vegagerð á Vestfjörðum verði í ríkari mæli horft til jarðganga sem valkosts. Þetta kom fram í ályktun á aðalfundi samtakanna í gær.

Samtökin segja að með jarðgöngum á milli fjarðarbotna mætti víða stytta vegalengdir og bæta umferðaröryggi ásamt því að koma í veg fyrir óþarfa umhverfisrask. Einnig mætti nýta það efni sem til falli við jarðgangagerðina til uppbyggingar vega og þar með halda efnistöku úr opnum námum í lágmarki.

Brýnt er, segja samtökin, að gera sem fyrst áætlun um jarðgangavæðingu landshlutans. Þá hljóti góð og trygg jarðgöng milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar að vera forgangsmál, en einnig þurfi að hefjast handa við jarðgangagerð undir Hjallaháls í stað fyrirhugaðrar krækingar og þverunar Gufu- og Djúpafjarðar.

Það yrði fyrsti áfangi í jarðgangagerð frá Þorskafirði í gengnum Hjalla-, Ódrjúgs-, Gufudals-, og Klettsháls vestur að Patreksfirði og Arnarfirði. Skipulagsstofnun lagðist á sínum tíma gegn þveruninni vegna mikilla umhverfisáhrifa. Þá er hún í óþökk landeigenda á svæðinu sem vilja vernda Teigskóg í utanverðum Þorskafirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×