Innlent

Frambjóðendur hafast misjafnt við

Nú þegar ein vika er til kosninga keppast frambjóðendur við að koma sér og málefnum sínum á framfæri. Í dag bauð Frjálslyndi flokkurinn gestum og gangandi upp á grillaðan fisk hjá Sægreifanum við smábátahöfnina í Reykjavík og Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra setti sýninguna Veiði í Smáralind.

Það voru margir sem lögðu leið sína niður að smábátahöfn í reykjavík í dag þar sem Frjálslyndi flokkurinn blés til hátíðarhalda og boðið var upp á grillaðan fisk að hætti Sægreifans. Mikil og góð stemmning var á staðnum og þótti fiskurinn smakkast vel. Örn Árnason leikari söng og skemmti gestum af sinni alkunnu snilld.

Í morgun opnaði Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra sýninguna Veiði 2007 í Smáralind með því að prófa nýja tegund af kaststöng. Það gekk þó ekki betur en svo að girnið í stönginni flæktist. Ráðherra kippti sér ekki upp við þetta heldur beið rólegur þar til búið var að leysa úr flækjunni og reyndi svo aftur með mun betri árangri.

Á sýningunni eru á þriðja tug sýnenda og eru þeir afar fjölbreyttir og ná yfir allt veiðisviðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×