Innlent

Nýjan varaflugvöll þarf verði Reykjavíkurflugvelli lokað

Flugvallarnefnd telur að ef Reykjavíkurflugvelli verði lokað og innanlandsflugið flutt til Keflavíkur þurfi samhliða að byggja upp nýjan varaflugvöll á Bakka í Landeyjum, meðal annars vegna hættu á eldgosum á Reykjanesskaga. Allt að tíu prósenta líkur eru taldar á eldgosi þar á næstu fimmtíu árum.

Flutningur innanlandsflugsins til Keflavíkur er ásamt uppbyggingu nýs flugvallar á Hólmsheiði talinn sá kostur sem skilar mestum þjóðhagslegum ábata, samkvæmt skýrslu flugvallarnefndar sem birt var í gær.

Nefndin telur hlutverk Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvallar fyrir Keflavíkurflugvöll það mikilvægt að byggja verði upp nýjan varaflugvöll á suðvesturhorninu, verði Vatnsmýrin tekin undir annað. Rökin eru þau að varaflugvöllur í Reykjavík spari töluvert fé fyrir flugrekstur og hafi auk þess mikla þýðingu fyrir öryggi flugsamgangna til og frá landinu, sem og innanlands. Einnig þurfi að hafa í huga mögulega náttúruvá.

Fékk flugvallarnefnd því Íslenskar orkurannsóknir til að meta líkur á eldgosi á Reykjanesskaga. Niðurstaða þeirra var að líkur á eldgosi þar á næstu 50 árum geti verið allt að tíu prósent. Ekki er talið ljóst hvaða áhrif eldgos þar hefði á flugsamgöngur eða samgöngur til eða frá flugvelli. Sérfræðingar telja ekki mikla hættu á að hraunrennsli teppi vegasamgöngur milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Hins vegar geti öskugos á Reykjanesi haft truflandi áhrif á flug. Með hliðsjón af þessu reiknar flugvallarnefnd því með því í sinni skýrslu að Bakkaflugvöllur í Landeyjum verði stækkaður og byggður upp sem varaflugvöllur, ef innanlandsflugið flyst til Keflavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×