Innlent

Kom ekki nálægt umsókn tengdadóttur sinnar

Umhverfisráðherra segist ekki hafa komið nálægt afgreiðslu umsóknar tengdadóttur sinnar um íslenskan ríkisborgararétt. Formaður allsherjarnefndar Alþingis segir nefndina ekki hafa vitað af tengslunum og ekkert athugavert sé við að henni var veittur ríkisborgararéttur eftir fimmtán mánaða dvöl á landinu.



Allsherjarnefnd Alþingis veitti 22 ára gamalli stúlku frá Gvatemala ríkisborgararétt í mars síðastliðnum ásamt 17 öðrum. Stúlkan er unnusta sonar Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra og er skráð með lögheimili á heimili ráðherra. Hún hefur verið búsett á Íslandi í fimmtán mánuði.

Samkvæmt lögum um veitingu ríkisborgararéttar þarf viðkomandi að hafa verið búsettur hér á landi í sjö ár eða þrjú ár sé hann giftur Íslendingi. Jónína segist á engan hátt hafa komið nálægt umsókn tengdadóttur sinnar. Hún segist hins vegar hafa bent tengdadóttur sinni á að hægt væri að sækja um íslenskan ríkisborgaraétt hjá allsherjarnefnd og fengið undanþágu.



Bjarni Benediktsson formaður allsherjarnefndar segir ekkert athugavert við að stúlkunni hafi verið veittur ríkisborgararéttur. Hann segir engan nefndarmannanna hafa vitað af tengslum ráðherrans við stúlkuna. Nær allir sem sæki um ríkissborgararétt til allsherjarnefndar uppfylli ekki skilyrði laganna. Í flestum tilvikum hafi útlendingastofnun mælt gegn veitingu ríkisborgararéttar þeirra því þeir uppfylli ekki skilyrðin um tímarammann. Allsherjarnefnd hafi afgreitt hátt í hundrað og fimmtíu umsóknir um ríkisborgararétt á þessu kjörtímabili og um það bil þrjátíu prósent af þeim hafi einungis dvalið á landinu í tvö ár eða skemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×