Innlent

Íslendingar bera kostnað af veru norskra hermanna hér

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra og Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, undirrituðu nú fyrir stundu samkomulag um samstarf á sviði öryggis- og varnarmála. Samkvæmt því bera Íslendingar kostnað af staðsetningu norskra liðsmanna hér.

Samkvæmt samkomulaginu verður um aukið upplýsingaflæði milli landanna að ræða og tengsl lögreglu- og öryggismálayfirvalda á Íslandi og í Noregi eflt. Norðmenn leggja sitt af mörkum til menntunar og þjálfunar íslensks starfsliðs, meðal annars á sviði flugeftirlits og stjórnunar, eftir nánara samkomulagi með hliðsjón af tímalengd og umfangi eins og það er orðað. Norðmenn leggi einnig sitt af mörkum til námskeiðahalds fyrir Íslendinga í upplýsingaöflun og um öryggismál.

Á grunni samkomulagsins verður undirbúinn samningur um eftirlit með skipaferðum á Norður-Atlantshafi, leitar- og björgunarþjónustu og mögulegt samstarf um kaup á björgunarþylum og viðbúnað á sviði almannavarna.

Æfingar verða meiri og samráð haft um aðgerðir flug- og sjóhers og landhelgisgæslu á Íslandi og hafsvæðinu umhverfis landið.

Samkvæmt samkomulaginu ber Ísland kostnað vegna staðsetningar liðsmanna, kosts og nauðsynlegs stuðning á Íslandi og vegna notkunar á aðstöðu í Keflavíkurstöðinni. Samið verður um umfang og eðli stuðnings áður er tiltekin verkefni verði leyst.

Ítarlegur tæknilegur samningur verður gerður.

Þór Whitehead, sagnfræðingur, hefur bent á að norskir hermenn hafi tekið virkan þátt í vörnum Íslands í Seinni heimsstyrjöldinni og segir samstarf Íslands og Noregs hafa verið náið á árum Kalda stríðsins. Hingað hafi komið bæði norskar kafbátavélar til æfinga og herþotur - það sé því ekki nýtt að norski herinn fái að æfa hér á landi.

Viðtal við Þór Whitehead má sjá í heild sinni hér.

Samkomulagið má sjá í heild sinni hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×