Innlent

Danskur ríkisborgari í haldi Bandaríkjamanna í Írak

Per Stig Möller, utanríkisráðherra Danmerkur, gagnrýndi í dag bandarísk yfirvöld fyrir að greina dönsku ríkisstjórninni ekki frá því að danskur ríkisborgari af íröksku bergi brotinn hefði verið í haldi Bandaríkjahers í Írak í marga mánuði.

Möller greindi utanríkismálanefnd danska þingsins frá málinu í morgun en það var fyrst skömmu fyrir páska að dönsk yfirvöld fréttu af manninum.

Eftir því sem fram kemur á fréttavef Politiken er maðurinn grunaður um að ógna öryggi í landinu eins og það er orðað. Möller sagði að maðurin hefði verið í haldi frá því í desember og að dönsk stjórnvöld hefðu haft samband við hann eftir páska. Sagði Möller bandarísk stjórnvöld hafa skýrt þessa ákvörðun sína með því að maðurinn hefði ekki verið skráður sem danskur ríkisborgari heldur Íraki.

Haft er eftir Mogens Lykketoft, talsmanni jafnaðarmanna í utanríkismálum, að alvarlegt sé að danska ríkisstjórnin fái ekki upplýsingar um danska ríkisborgara í haldi í Írak. Bendir hann á að dönsk yfirvöld hafi verið í hópi stuðningsþjóða Bandaríkjamanna við innrásina í Írak.

Segir á vef Politiken að maðurinn sem umræðir hafi verið handtekinn í nágrenni vopnalagers og að hann hafi verið sýknaður af öllum ákærum fyrir írökskum dómsstól. Honum sé hins vegar haldið vegna þess að talið sé að hann ógni öryggi í landinu. Per Stig Möller segir að reynt verði að ljúka málinu sem fyrst.

Þá er Íraki með dvalarleyfi í Danmörku einnig í haldi í Írak en danska utanríkisráðuneytinu hefur ekki tekist að ná sambandi við hann. Báðir eru mennirnir í haldi í herbúðum nærri Bagdad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×