Innlent

„Við erum alveg að komast upp að vegg,“ segir forstjóri Landspítalans

Halli á rekstri Landspítalans háskólasjúkrahúss nam 290 milljónum króna á síðasta ári samkvæmt ársreikningi spítalans sem kynntur var nú í morgun. Á sama tíma og fleiri leita til spítalans eftir þjónustu hefur raunfjárveiting staðið í stað. Forstjóri Landspítalans háskólasjúkrahúss segir nauðsynlegt að ríkið auki fjárveitingar til stofnunarinnar.

„Við erum alveg að komast upp að vegg," sagði Magnús Pétursson, forstjóri Landspítalans á blaðamannafundi í morgun. „Það verður að auka fjárveitingar til spítalans. Það verður ekki veitt góð heilbrigðisþjónusta hér á landi nema komi til meiri fjárveiting." Dæmi eru um að spítalinn hafi þurft að selja eignir til að standa undir rekstrarkostnaði sérstakra eininga.

Samkvæmt ársreikningi Landspítalans nam tap á rekstri spítalans 290 milljónum króna á síðasta ári. Árið 2005 skilaði spítalinn rekstrarhagnaði upp á 546 milljónir.

Launagjöld námu tæpum 22 milljörðum á síðasta ári og jukust um nærri tvo milljarða milli ára. Rekstrargjöld voru rúmur 9,5 milljarðar og jókst um einn milljarð frá fyrra ári.

Alls hafa komur á slys- og bráðadeild aukist um 31 prósent frá árinu 2002. Á sama tímabili hafa vitjanir heimaþjónustu aukist um 40 prósent og komur á dag- og göngudeildir um 25 prósent. Frá árinu 2002 hefur hins vegar fjárveiting ríkisins til spítalans á föstu verðlagi farið minnkandi.

 

Í ársreikningi spítalans kemur ennfremur fram að sívaxandi eftirspurn sé eftir þjónustu Landspítalans - háskólasjúkrahúss. Núverandi fjárveiting sé úr takt við raunveruleikann og þetta kalli á almenna umræðu um stefnumörkun í heilbrigðismálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×