Innlent

Herréttur hafinn í morðmálinu í Keflavíkurstöðinni

MYND/Teitur
Réttarhöld yfir meintum morðingja flugliðans Ashley Turner, sem myrt var í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli í ágúst 2005, eru hafin. Herréttarhöldin fara fram í flugstöð Bandaríska flughersins í Washington sökum þess að Keflavíkurstöðinni hefur verið lokað. Verjandi mannsins segir að yfirvöld hafi verið of fljót á sér í málinu og að þeim hafi láðst að rannsaka annan mann sem hafði ástæðu til að vinna Turner mein. Íslensk kærasta mannsins neitar að mæta fyrir réttinn.

 

Hinn ákærði, Calvin E. Hill, gæti átt yfir höfði sér dauðadóm verði hann fundinn sekur. Verjendur segjast fullvissir um að þeir séu með rétta manninn fyrir dómi og benda á að blóð úr fórnarlambinu hafi fundist á skóm ákærða. Auk þess segja þeir að klefafélagi Hill í fangelsi hafi vitnað um að Hill hafi viðurkennt fyrir sér að hann hafi myrt Turner.

 

Hin tvítuga Ashley Turner var barin og stungin til bana í setustofu í svefnskála á Keflavíkurstöðinni 14. ágúst 2005. Hún átti að mæta fyrir rétt til að vitna í máli sem varðaði þjófnað sem Hill var sakaður um. Verjandi Hill benti hins vega á fyrir réttinum að kærasti Turner, Ronald Ellis, hefði líka verið kallaður fyrir rétt í sama mánuði fyrir eiturlyfjaneyslu, og að Turner hafi verið kunnugt um neyslu hans. Verjandinn segir ennfremur að sést hafi til þeirra Turner og Ellis í heiftúðugu rifrildi á skemmtistað sem endaði með því að Turner rauk á dyr.

 

Saksóknarinn tekur ekki mikið mark á málatilbúnaði verjandans og bendir á að fjarvistarsönnun Hill sé ekki nægilega góð. Hann segist hafa verið í herbergi sínu með íslenskri kærustu sinni og að hann hafi aðeins brugðið sér frá í stutta stund. Kærasta mannsins hefur hins vegar sagt fyrir rétti að hann hafi verið fjarverandi í klukkutíma og að þegar hann kom til baka hafi hann verið löðursveittur og farið strax að þvo þvott. Kærasta Hill neitar að mæta fyrir réttinn í Bandaríkjunum en notast verður við fyrri vitnisburð hennar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×