Innlent

Landsmenn taki fréttum af mótmælendum með gagnrýnum huga

Frá Seyðisfirði.
Frá Seyðisfirði.

Lögreglan á Seyðisfirði biður landsmenn að taka fréttum á komandi sumri af samskiptum lögreglunnar og mótmælenda með gagnrýnum huga en þeir hafa boðað uppsetningu mótmælendabúða frá og með 6. júlí 2007.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að í fyrradag hafi einn af hinum svokölluðu mótmælendum komið með Norrænu til landsins. Þá hafi lögregla þurft að birta honum dóm Héraðsdóms Austurlands þar sem hann hafði verið dæmdur í tvegggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa svipt skrifstofufólk á Reyðarfirði frelsi sínu og fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglunnar.

Segir lögregla að maðurinn hafi ásakað lögreglumann í sjónvarpsviðtali um að hafa meðan á tollafgreiðslu bifreiðar sinnar stóð hótað að koma fíkniefnum eða „einhverju“ eins og mótmælandinn orðaði það fyrir í bifreiðinni til að geta vísað honum úr landi.

Segir lögregla þetta vart svaravert og í frásögur færandi ef ekki væri fyrir það að þessi maður ásamt félögum sínum hafi undanfarin tvö ár komist upp með það að ásaka lögregluna á Íslandi, sem samkvæmt skoðanakönnunum nýtur mikils trausts almennings m.a. fyrir heiðarleika, um margs konar ávirðingar í starfi. Engar kærur hafi komið fram vegna þessara meintu ávirðinga.

Segir lögrelga fjölmiðla hafa tekið þessum yfirlýsingum eins og nýju neti og birt þær jafnóðum nær gagnrýnislaust. Lögreglan hafi leitast við að svara þessu jafnóðum en hafi ekki fengið eins mikinn tíma í fjölmiðlum og mótmælendur og hlutleysis í fréttaflutningi hafi að mati lögreglunnar ekki verið gætt sem skyldi.

Það sé þekkt aðferðafræði mótmælenda að ata mótherja sína auri til að reyna að bæta eigin málstað og koma á þá höggi. Lögreglan segist ekki hafa afskipti af mótmælendum af fyrra bragði og þurfi þeir að brjóta af sér til þess að lögregla láti til sín taka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×