Innlent

Vænir hákarlar á land í Húsavík

Björn Gíslason skrifar
MYND/Ingi R. Ingason

Þrír myndarlegir hákarlar voru hífðir á land í Húsavíkurhöfn í dag en þeir veiddust á hákarlalínu sem legið hafði út í Skjálfanda síðustu daga. Það var Aðalsteinn Karlsson á bátnum Kalla á höfða sem veiddi hákarlana þrjá en hann er sjómaður og stundar hákarlaveiðar sem aukabúgrein.

Sjálfur verkar Aðalsteinn hákarlana og segist borða þá sjálfur og gefa þeim vinum og vandamönnum sem vilji. Hákarlaveiðin í Skjálfanda virðist hafa batnað í vetur eftir nokkur mögur ár því Aðalsteinn og félagi hans fengu tvo hákarla fyrir tíu dögum þegar þeir vitjuðu línunnar þá. Þeir hafa því fengið alls fimm hákarla í vetur og sama má segja um tvo sjómenn á öðrum sem veitt hafa hákarl þar í vetur.

Aðalsteinn segir hákarlana væna, um hundrað kílóa lifur sé í þeim. Aðspurður segist hann hafa verið hættur hákarlaveiðum að mestu fyrir nokkrum árum en svo hafi honum áskotnast lína í arf og hann hafi hafið veiðarnar aftur. Þær virðist vera að glæðast eftir nokkur mögur ár, en ekki var óalgengt áður fyrr að menn fengju 6-8 hákarla ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×