Innlent

Samið við Norðmenn án samráðs við þjóðina

MYND/VG

Samningar við erlend ríki um varnaraðstoð er ekkert smámál sem ber að afgreiða á nokkrum dögum að mati formanns Samtaka herstöðvaandstæðinga. Hann segir nauðsynlegt að þjóðinni sé gefinn kostur að ræða innihald og efni varnarsamningsins við Noreg áður en hann er undirritaður.

„Það er verið að reyna klára þetta mál án samráðs við þjóðina," sagði Stefán Pálsson, formaður Samtaka herstöðvaandstæðinga, í samtali við Vísi. „Það er látið í það skína að þetta sé smámál sem ráðherra geti klárað án þess að tekin sé umræða um það í þjóðfélaginu. Ef hér er hins vegar um raunverulega hernaðaraðstoð að ræða þá gerast samningar ekki stærri."

 

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, undirrita á morgun samning um aukið samstarf þjóðanna í varnar- og öryggismálum. Ráðamenn hafa þagað þunnu hljóði um innihald samningsins en samkvæmt norska blaðinu Aftenposten kveður hann meðal annars á um að norskar herþotur sjái um eftirlit í lofthelgi Íslands og geri út frá Keflavíkurflugvelli. Fulltrúar allra þingflokka funduðu um málið í utanríkismálanefnd Alþingis í gær en samkomulag er á milli flokkanna um að gefa engar upplýsingar um málið fyrr búið er að undirrita samninginn.

 

Stefán segist sannfærður um að enginn vilji sé meðal almennings á Íslandi að gera landið að æfingarbúðum fyrir norska herinn. „Ég er sannfærður um að það er enginn vilji fyrir þessu meðal almennings. Þessi atburðarrás og þessi leynd í kringum innihald samningsins er með hreinum ólíkindum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×