Innlent

Hlupu nakin um götur Akureyrar

Gríðarlegt annríki var hjá lögreglu á Akureyri í gær þar sem mikill fjöldi unglinga var í bænum langt fram á morgun. Lögregla segir þó að nóttin hafi gengið vonum framar.

Það var söngkeppni framhaldsskólanna sem laðaði til sín fjölda ungs fólks til Akureyrar um helgina. Eftir að keppninni lauk í Íþróttahöllinni í gær með sigri heimamanna þustu hundruð ef ekki þúsundir ungmenna út á göturnar en dansleikur í höllinni hófst ekki fyrr en klukkan eitt. Lögregla og sjúkralið þurftu að hafa afskipti af sumum vegna ölvunar.

Ungmenni hlupu nakin um götur, ein líkamsárás var kærð, rúða var brotin í íþróttahöllinni og vísbendingar um fleiri skemmdarverk. Þrátt fyrir þetta segir lögreglan að nóttin hafi farið vel fram miðað við aðstæður og langflest ungmennin hafi verið til fyrirmyndar.

Annríki lögreglu var þó gríðarlegt og minnti miðbærinn á ástandið um verslunarmannahelgina klukkan sex í morgun þar sem fjöldi eftirlegukinda var enn í bænum í þeim tilgangi að skemmta sér, að sögn lögreglu. Þá var eitthvað um ölvunarakstur og umferðarlagabrot.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×