Innlent

Skuldayfirlýsing skaðar líklega ekki VSP

Skuldayfirlýsingin sem framkvæmdarstjóri VSP gaf út kemur líklega ekki til með að skaða fyrirtækið. Snarræði starfsmanna þjónustunnar í síðustu viku gerði það að verkum að að hægt var að kalla yfirlýsinguna til baka.

Framkvæmdarstjórinn gaf út yfirlýsinguna til erlends fyrirtækis og hljóðar hún upp á nokkra milljarða króna. Upp komst um málið í síðustu viku og var framkvæmdarstjórinn kallaður heim úr fríi og fyrirvaralaust sagt upp störfum og málið kært til saksóknara efnahagsmála.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er um einstakt tilvik að ræða og kemur VSP líklega ekki til með að skaðast vegna þessa. Innra eftirlit VSP komst á snoðir um málið í síðustu viku og afturkallaði yfirlýsinguna samstundis. Þar með varð hún ógildur pappír.

Þeir sérfræðingar sem fréttastofa leitaði til í dag segja að hugsanlega skaðist erlenda fyrirtækið sem tók yfirlýsinguna alvarlega og þá gæti það fræðilega séð farið fram á skaðabætur frá VSP. Það þykir þó ólíklegt.

Að sama skapi segja sérfræðingar að málið geti rýrt trúverðuleika VSP en trúverðugleiki er horsteinn allra fjármálafyrirtækja. Því fyrr sem niðurstaða kemst í málið því betra fyrir VSP.

Málið er nú til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra og er rannsókn þess á frumstigi. Þær upplýsingar fengust frá embættinu að yfirheyrslum sé lokið og hefur framkvæmdarstjórinn verið úrskurðaður í farbann. Farið verður yfir málið á morgun og þá verður tekin ákvörðun um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×