Innlent

Grafarholtshverfi framvegis tvö kjördæmi

MYND/kjörstjórn

Landskjörstjórn hefur ákveðið að skipta Grafarholtshverfi milli Reykjavíkurkjördæmis suður- og norður fyrir komandi Alþingiskosningar. Áður tilheyrði hverfið allt Reykjavíkurkjördæmi norður.

Íbúafjöldi í hverfinu hefur vaxið mikið frá síðustu kosningum og er það helsta ástæða þess að hverfinu er nú skipt upp. Hverfið skiptist nú mili suður- og norðurkjördæmis um Kristnibraut, Gvendargeisla og Biskupsgötu.

Að sögn Einars Farestveit, ritara landskjörstjórnar, þarf Landskjörstjórn að gæta jafnvægis milli fjölda kjósenda í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Því hafi verið nauðsynlegt að skipta hverfinu upp.

Að öðru leyti helst kjördæmaskipting í Reykjavík óbreytt frá síðustu Alþingiskosningum.

Alls eru 87.173 kjósendur á kjörskrárstofni í Reykjavík. Skipting milli kjördæma er þannig að í Reykjavíkurkjördæmi suður eru 43.398 kjósendur eða 49,78% af fjölda kjósenda í Reykjavík en í Reykjavíkurkjördæmi norður eru 43.775 kjósendur eða 50,22% af fjölda kjósenda í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×