Innlent

Spá því að Íslendingar verði yfir hálf milljón 2050

Íslendingar telja að íbúar landsins verði orðnir 533 þúsund um miðja öldina samkvæmt nýrri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Samtök atvinnulífsins á framtíðarviðhorfum þjóðarinnar. Eftir því sem fram kemur á vef samtakanna er þetta töluvert meira en mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir og sömuleiðis spá Samtaka atvinnulífsins.

Sameinuðu þjóðirnar telja að Íslendingar verði um 355 þúsund árið 2050 og munar því 180 þúsund á þeirri spá og spá Íslendinga. Þá telja Samtök atvinnulífsins að Íslendingar verði um 400 þúsund um miðja öldina og munar því 130 þúsundum þar.

Í spá Samtaka atvinnulífsins er gert ráð fyrir að til landsins flytji 500 til 600 manns á ári umfram þá sem flytjast brott og þannig verði um 40 þúsund manns af erlendu bergi brotnir árið 2050 hér á landi eða sem nemur 10 prósentum af heildarfjöldanum.

Enn fremur segir á vef Samtakanna að aldursamsetning þjóðarinnar muni breytast mikið á næstu áratugum þannig að Íslendingar 80 ára og eldri verði 45 þúsund árið 2050 en rúmlega níu þúsund manns eru nú í þeim hópi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×