Innlent

Veittu manni á númerslausri rútu eftirför

MYND/Guðmundur

Lögregla á Hólmavík þurfti á föstudag að veita manni á rútu eftirför eftir að hann skeytti ekki um stöðvunarmerki. Fram kemur í dagbók lögreglunnar á Vestfjörðum að atvikið hafi átt sér stað um hádegisbil en maðurinn ók þá um Hólmavík á númerslausri rútunni.

Hætta skapaðist þegar reyna á átti að hefta för mannsins en lögreglumanni tókst með snarræði að koma í veg fyrir árekstur við rútuna. Eftir að bifreiðin hafði verið stöðvuð lokaði ökumaðurinn sig inni í bifreiðinni og hótaði lögreglumanni líkamsmeiðingum ef lögregla hyrfi ekki af vettvangi.

Maðurinn komst síðan inn á heimili sitt skammt frá þeim stað þar sem hann stöðvaði rútuna og var gripinn þar. Grunur leikur á að hann hafi ekki verið með réttindi til að aka rútu en rannsókn málsins er ekki lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×