Innlent

Stofnendur Iceland Express segja Samkeppnisstofnun vanhæfa

Oddur Ástráðsson skrifar

Stofnendur Iceland Express-flugfélagsins fagna úrskurði Samkeppniseftirlitsins um að Icelandair hafi brotið samkeppnislög gagnvart fyrirtækinu árið 2004. Þeir segja hins vegar að úrskurðurinn komi allt of seint.

Í tilkynningu frá þeim Aðalsteini Magnússyni, Guðmundi Þór Guðmundssyni, Ólafi Haukssyni og Sigurði I. Halldórssyni segir að það hafi verið tálsýn ein að Iceland Express gæti treyst því að njóta verndar samkeppnislaga gagnvart Icelandair.

Vegna undirboða Icelandair og fjárhagslegs afls þeirra hafi þeir neyðst til að selja 89% hlutafjár til Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar fremur en að hætta rekstri. Pálmi sat í stjórn Icelandair á þeim tíma. Þeir segja ennfremur að eftir að Jóhannes og Pálmi tóku við sem eigendur Iceland Express hafi dregið úr undirboðum Icelandair og fargjöld beggja hækkað, svo og skattar og gjöld. Strax þá hafi bæði félögin farið að hagnast verulega.

Þeir lýsa í tilkynningu yfir miklum vonbrigðum yfir vangetu Samkeppnisstofnunar til að standa vörð um hagsmuni neytenda og segja neytendur klárlega hafa fundið fyrir þeim skorti af samkeppni sem leitt hefur af henni.

Samkeppniseftirlitið sektaði Icelandair um 190 milljónir króna fyrir að hafa brotið gegn samkeppnislögum með því að misnota markaðsráðandi stöðu sína í áætlunarflugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×