Innlent

Suðurlandsvegur opinn á ný - Ekkert ferðaveður enn

Suðurlandsvegur hefur verið opnaður aftur. Honum var lokað á tólfta tímanum vegna ófærðar. Björgunarsveitarmenn hafa frá því fyrir hádegi aðstoðað ökumenn sem lent hafa í vandræðum vegna veðursins.

Vonskuveður er víða á Vesturlandi og Norðurlandi vestra en þar er ekkert ferðaveður og versnandi færð. Stórhríð er á Fróðárheiði og norðanverðu Snæfellsnesi. Þá er óveður á Holtavörðuheiði en þar er hálka og mikill skafrenningur.

Snjóflóð lokar Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði og varað er við snjóflóðahættu á Óshlíð. Á Vestfjörðum er víða hálka og Eyrarfjall er ófært.

Á Norðurlandi er versnandi veður. Óveður er á Vatnsskarði en hálka og skafrenningur á Öxnadalsheiði.

Á Austurlandi er víðast hvar góð færð þótt sumstaðar séu hálkublettir og skafrenningur, einkum á heiðum. Öxi er ófær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×