Innlent

Holtavörðuheiði ekki opnuð fyrr en í fyrramálið

Björgunarsveitir hafa í dag hjálpað fólki sem lenti í vandræðum á bæði Hellisheiði og Holtavörðuheiði vegna hvassviðris og ofankomu. Þá hafa snjóflóð fallið á veginn milli Súðavíkur og Ísafjarðar í dag.Illviðrið færir sig nú yfir á austurhluta landsins og ræður Slysavarnafélagið Landsbjörg fólki frá því að leggjast í ferðalög á illa búnum bílum.

Lægðadrag hefur gengið yfir landið frá því í gærkvöld með töluverðu hvassviðri og ofankomu á sumum stöðum. Annars staðar hefur verið mikill skafrenningur sem hefur gert vegfarendum á þjóðvegum landsins erfitt fyrir. Því hafa björgunarsveitir í nágrenni Holtavörðuheiðar og Hellisheiðar haft nokkuð að gera í dag.

Vandræðin hófust strax í morgun þegar Hellisheiðinni var lokað vegna blindu af völdum skafrennings og þurftu lögregla og Hjálparsveit skáta úr Hveragerði að koma ökumönnum sem fastir voru á heiðinni til aðstoðar. Sama var uppi á teningnum eftir hádegi og er vegurinn enn lokaður en fólki bent á að fara um Þrengslin.

Holtavörðuheiðin hefur verið lokuð frá því um hádegisbil og þurftu björgunarsveitir beggja vegna heiðar að aðstoða um tug bíla niður af heiðinni. Ekki verður reynt að moka Holtavörðuheiðina fyrr en í fyrramálið og sömu sögu er að segja af Bröttubrekku en fólki er bent á að fara Laxárdalsheiði og Heydal.

Þrjú snjóflóð hafa fallið í dag á veginn milli Súðavíkur og Ísafjarðar og liggur ekki fyrir hvenær vegurinn verður ruddur.

Vegagerðin segir að slæmt veður sé einnig á Norðurlandi, Norðausturlandi og Austurlandi. Víkurskarð er ófært og ekkert ferðaveður er á Mýtvatnsheiði og heldur ekki milli Djúpavogs og Hafnar í Hornafirði. Þá er ungfært og stórhríð er yfir Fjarðarheiði. Beinir Slysavarnafélagið Landsbjörg því til fólks að leggja ekki í ferðalög, og þá sérstaklega ekki á heiðar, á illa útbúnum smábílum.

Búast má við að veðrið gangi yfir austurhluta landsins í kvöld og nótt og verði gengið niður á vestanverðu landinu í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×