Erlent

Royal snýr sér að reynsluboltum

Segolene Royal
Segolene Royal AP

Segolene Royal frambjóðandi sósíalista í forsetakosningum í Frakklandi hefur nú ákveðið að snúa sér til reynsluboltanna sem eru með henni í flokki til að fá ráð í kosningabaráttunni. Mennirnir sem hún nú biður um ráð eru þeir sem hún hafði undir í baráttunni um útnefningu flokksins fyrir forsetakosningarnar.

Royal hefur leitað ráða hjá Dominique Strauss-Kahn og Laurent Fabius, sem báðir eru fyrrverandi ráðherrar Sósíalistaflokksins. Stjórnmálaskýrendur telja að Royal snúi sér nú að þeim gömlu til að tryggja sér atkvæði þeirra sem kosið hafa sósíalista frá fornu fari en efast um hæfileika hennar.

Að Royal snúi sér til reynslubolta er talið minna um margt á herfræði Francois Mitterand sem er sá eini í röðum sósíalista sem hefur verið kjörinn forseti Frakklands. Hann beitti svipuðum meðölum fyrir kosningarnar 1981 sem hann vann sögulegan sigur í.

Vinni Segolene Royal Nicolas Sarkozy frambjóðanda hægrimanna í kosningunum í vor verða það einnig söguleg úrslit en kona hefur aldrei verið forseti Frakklands.



Forsetar Frakklands frá lokum seinna stríðs (fimmta lýðveldið):

1947 - 1954 Vincent Auriol

1954 - 1959 René Coty

1959 - 1969 Charles de Gaulle

1969 - 1974 Georges Pompidou

1974 - 1981 Valéry Giscard d'Estaing

1981 - 1995 François Mitterrand

1995 - 2007 Jacques Chirac




Fleiri fréttir

Sjá meira


×