Innlent

Jólin kvödd víða um land

Í kvöld flytjast álfar búferlum og kýr tala mannamál. Þessi þrettándi dagur jóla markar lok þeirra og er honum víða fagnað með brennum og flugeldasýningum.

Kveikt var í brennu á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi á sjötta tímanum en tónlistarmaðurinn Valgeir Guðjónsson leiddi þar söng ásamt álfadrottningu og álfakóngi.

Um þjóðtrú tengda þrettándanum gildir flest hið sama og um nýársnótt. Þessa nótt fara selir úr hömum sínum, kirkjugarðar rísa, kýr tala mannamál og tækifæri er fyrir þá álfa sem vilja til að flytja búferlum. Þar sem þrettándinn táknar lok jólahátíðarinnar er þetta líka sá dagur þar sem jólasveinarnir halda aftur til síns heima.

Líkt og á gamlárskvöld var brenna á Ægissíðu í Reykjavík og hófst hún klukkan fimm. Þar mættu á milli tvö og þrjú hundruð manns á öllum aldri.

Þrettándanum er fagnað víða í kvöld en álfabrenna verður haldin í Bolungarvík í kvöld og þar ætla Vestfirðingar að stíga dans og Grundfirðingar ætla sér að koma saman í Hrafnkelsstaðabotni um klukkan átta í kvöld og kveikja brennu. Brenna verður einnig neðan Holtahverfis í Mosfellsbæ klukkan korter yfir átta í kvöld og jólin kvödd með flugeldasýningu sem hefst klukkan níu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×