Enski boltinn

Sanchez æfur út í yfirmann dómaramála á Englandi

Aron Örn Þórarinsson skrifar
Lawrie Sanchez er ekki hrifinn af dómurunum á Englandi.
Lawrie Sanchez er ekki hrifinn af dómurunum á Englandi. NordicPhotos/GettyImages

Lawrie Sanchez, knattspyrnustjóri Fulham, skaut fast að Keith Hackett, yfirmanni dómaramála í ensku úrvalsdeildinni í gær. Sanchez segir að Hackett sé of upptekinn af því að gera Rafa Benítez ánægðan og það sé á kostnað „minni liða."

Sanchez er æfur yfir því að liðið hans hafi ekki fengið dæmda vítaspyrnu gegn Aston Villa um helgina þegar boltinn fór augljóslega í hönd Craig Gardner inni í vítateig Villa, sjö dögum eftir að mark var dæmt af David Healy, framherja Fulham, þar sem boltinn fór augljóslega inn fyrir línuna.

Sanchez er reiður vegna þess að hann bað Hackett um að útskýra fyrir sér af hverju markið var dæmt af. Hackett gat ekki gert það en fann samt tíma til að gera vel við Benítez vegna vítaspyrnudómsins umdeilda í leik Chelsea og Liverpool. Eftir að dómarinn dæmdi ekki vítaspyrnu gegn Villa um helgina var Sanchez nóg boðið.

„Ég sagði við dómarann að hann hefði gert stór mistök og þau myndu sjást í sjónvarpinu, þið getið ekki haldið áfram að dæma allt vitlaust. En hann hundsaði mig," sagði Sanchez. „Ég ætla að tala við Hackett um þetta og spyrja hann af hverju vítaspyrnan var ekki dæmd. Í þetta sinn vona ég að hann svari símtali mínu. Hann sagðist ætla að tala við mig eftir að markið var dæmt af Healy í síðustu viku, hann talaði við Rafa en ekki mig. Dómararnir hafa tekið margar rangar ákvarðanir það sem af er þessu tímabili. Það þarf að gera eitthvað við þessu. Hackett sagðist ætla að skoða þetta og hringja svo í mig, en það gerði hann ekki. Svo eyðir hann öllum þessum tíma í að útskýra hlutina fyrir Rafa. Kannski eru litlu liðin ekki jafn mikilvæg."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×