Enski boltinn

Dauðfeginn að vera laus frá félaginu

Gylfi Einarsson
Gylfi Einarsson

Gylfi Einarsson var leystur undan samningi við Leeds United á föstudagskvöldið og er því í leit að félagi þessa dagana. Þar með lauk skrautlegum tíma í lífi Gylfa, sem kom til félagsins árið 2004 frá Lilleström. Gylfi byrjaði feril sinn hjá Leeds vel og skoraði strax í sínum öðrum leik með liðinu. Það var á endanum hans eina mark fyrir þetta fornfræga félag.

Það gekk ágætlega hjá Gylfa fyrsta árið en síðan seig á ógæfuhliðina, Gylfi meiddist og hann er búinn að vera meira og minna meiddur síðustu mánuði. Hann spilaði þar af leiðandi ekki nema 25 leiki fyrir félagið á sínum tíma þar. Gylfi var ekki inni í framtíðaráætlunum stjórans Dennis Wise og þar af leiðandi fékk hann sig lausan frá félaginu.

„Ef ég á að segja eins og er þá er ég dauðfeginn að vera laus. Þetta er búið að vera erfiður tími og þar sem Wise ætlaði ekki að nota mig var fínt að losna,“ sagði Gylfi við Fréttablaðið í gær en hann hefur náð sér góðum af meiðslunum og er klár í slaginn.

„Nú vantar mig bara búning svo ég geti farið að spila. Ég þarf sárlega á því að halda að komast að þar sem ég fæ að spila. Ég er með nokkur járn í eldinum sem ég get ekkert tjáð mig um að svo stöddu en get þó sagt að ég er ekki að koma heim, það er alveg klárt mál,“ sagði Gylfi en hann vonast til að fá lendingu í sínum málum snemma í næstu viku.

Leeds byrjaði tímabilið með 15 stig í mínus en hefur farið vel af stað og er búið að vinna alla leiki sína í deildinni. Gylfi hefur trú á því að liðið geti farið upp.

„Leeds hefur alveg mannskapinn í það. Wise er búinn að hreinsa alveg út og þetta er bara nýtt lið hjá honum. Það hefur gengið mjög vel hjá þeim og ég sé þá alveg fara upp. Ég vona það því Leeds er allt of stórt félag til þess að leika í kjallaranum,“ sagði Gylfi en Leeds leikur í ensku C-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×