Enski boltinn

Á toppinn í fyrsta sinn í fimm ár

Leikmenn Liverpool fara á kostum þessa dagana og þeir settu sex bolta í netið hjá Derby í gær. Hér fagna leikmenn Liverpool glæsilegu marki Ryans Babel.
Leikmenn Liverpool fara á kostum þessa dagana og þeir settu sex bolta í netið hjá Derby í gær. Hér fagna leikmenn Liverpool glæsilegu marki Ryans Babel. getty

Liverpool byrjar leiktíðina í Englandi með miklum látum og er heitasta liðið á Bretlandseyjum um þessar mundir. Strákarnir hans Benitez voru sjóðheitir í gær þegar Derby kom í heimsókn, lokatölur 6-0, en þetta er stærsti sigur liðsins á Anfield síðan 1999. Nýju leikmennirnir voru áberandi og komust þrír þeirra á blað.

Liverpool er þar með komið á topp ensku úrvalsdeildarinnar í fyrsta skipti í fimm ár en Chelsea gæti velt liðinu af stalli í dag með sigri á Aston Villa.

„Við spiluðum mjög vel í fyrri hálfleik, fundum svæði, spiluðum boltanum vel og það var frábær hreyfing á boltalausum mönnum. Ég er ánægður með öll mörkin en markið hans Babels var líklega flottast. Það er gaman að sjá Torres halda áfram að skora. Voronin var fljótur að aðlagast leikkerfinu. Ég hefði viljað sjá Kuyt skora því hann lagði svo mikið á sig og átti það skilið,“ sagði glaðbeittur stjóri Liverpool, Rafa Benitez.

Raunir Tottenham eru ekki á enda en liðið tapaði 3-1 forystu gegn Fulham niður í jafntefli. Martin Jol, stjóri Spurs, var brjálaður út í varnarmenn sína eftir leikinn.

„Það gengur ekki að fá á sig mörk eins og við gerðum, til að mynda úr innkasti. Við verðum að draga úr þessum mistökum því þau gera okkur erfitt fyrir að vinna leiki. Ég get ekki sagt eftir hvern leik að við séum óheppnir en við verðum að verjast betur,“ sagði Jol.

Michael Owen skoraði sitt fyrsta mark á St. James"s Park í tvö ár í gær þegar hann tryggði Newcastle sigur á Wigan. Þetta var annað mark Owen í tveim leikjum og hann er allur að koma til.

„Það er alltaf gott að spila 90 mínútur og enda síðan daginn á því að skora sigurmarkið. Þetta er ástæðan fyrir því að maður er í fótbolta,“ sagði Owen brosmildur en Steve McClaren landsliðsþjálfari var á vellinum og sá hann skora.

Leikmenn West Ham duttu í gírinn í gær er þeir rúlluðu Reading upp, 3-0, en Reading er ekki að spjara sig jafn vel og síðasta vetur.

„Ég er gríðarlega ánægður með strákana sem eru að koma inn í liðið enda eru mikil meiðsli í okkar herbúðum. Þetta var mikilvægur sigur til að rífa sig frá neðri hlutanum,“ sagði Alan Curbishley, stjóri West Ham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×