Innlent

Sömdu um gagnkvæma aðstoð í bráðatilvikum

Frá vinstri: Kristján Einarsson, Brunavörnum Árnessýslu, Snorri Baldursson, Slökkviliði Hveragerðis, Óskar Reykdalsson, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Birgir Finnsson, SHS, Hreinn Frímannsson, OR, Kristján Hoffmann, Neyðarlínunni.
Frá vinstri: Kristján Einarsson, Brunavörnum Árnessýslu, Snorri Baldursson, Slökkviliði Hveragerðis, Óskar Reykdalsson, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Birgir Finnsson, SHS, Hreinn Frímannsson, OR, Kristján Hoffmann, Neyðarlínunni.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Brunavarnir Árnessýslu, Slökkvilið Hveragerðis og Heilbrigðisstofnun Suðurlands sömdu í dag um gagnkvæma aðstoð og sameiginleg viðbrögð við slysum, eldsvoðum og öðrum bráðatilvikum þar sem þjónustusvæði þeirra liggja saman.

Eftir því sem segir í tilkynningu nær samkomulagið meðal annars til virkjana Orkuveitu Reykjavíkur á Nesjavöllum og Hellisheiði, Þingvalla, Hellisheiðar og Þrengslavegar. Með samkomulaginu á að tryggja sem skjótust, öruggust og öflugust viðbrögð við slysum og öðrum atburðum þar sem þörf er á sjúkraflutningum og/eða slökkviliði.

Bent er á að þar sem svæði viðbragðsaðilanna liggja saman séu líkur á að annar en viðkomandi þjónustuaðili geti brugðist fyrr við. Þannig sé til dæmis styttra til Þingvalla frá stöð Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins á Tunguhálsi en frá Selfossi og Hveragerði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×