Erlent

Sarkozy kallaði eftir samstöðu Frakka

Jacques Chirac kveður eftir embættistökuna í París í dag.
Jacques Chirac kveður eftir embættistökuna í París í dag. MYND/AP

Nicolas Sarkozy, nýr forseti Frakklands, kallaði eftir samstöðu meðal frönsku þjóðarinnar í ávarpi sínu við embættistöku í Elysee-höll í morgun. Sarkozy, sem tekur við af Jacques Chirac, sagði jafnframt að breytinga væri þörf og að Frakkar þyrftu að taka meiri áhættu, en hann hefur lagt áherslu á að blása þurfi lífi í efnahagslíf landsins þar sem atvinnuleysi er átta prósent.

Sarkozy gagnrýndi kynþáttahatur í landinu og sagði taka þyfti fast á ólátum í landinu, en soðið hefur upp úr nokkrum sinnum á síðustu misserum í landinu vegna óánægju innflytjenda með stöðu sína. Þá hét hann því að verja sjálfstæði Frakklands og frönsk gildi. Eitt af síðustu verkum Chiracs í embætti var að afhenda Sarkozy talnalyklana að kjarnorkuvopnabúri Frakka.

Viðstödd embættistökuna voru kona Sarkozys, Cecilia, og börn þeirra en grunnt hefur verið á því góða með þeim hjónum. Sarkozy mun í dag fara að Sigurboganum þar sem hann minnist þeirra Frakka sem féllu í síðari heimsstyrjöldinni. Í kjölfarið heldur hann til Þýskalands til fundar við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.

Sarkozy greinir að líkindum frá því á morgun hvernig ríkisstjórn hans verður skipuð, en búist er við að einn helsti ráðgjafi hans og fyrrverandi ráðherra, Francois Fillon, verði forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×