Enski boltinn

Solskjær leggur skóna á hilluna

Solskjær fagnar mikilvægasta marki ferilsins. Sigurmarkinu í úrslitaleik meistaradeildar Evrópu árið 1999.
Solskjær fagnar mikilvægasta marki ferilsins. Sigurmarkinu í úrslitaleik meistaradeildar Evrópu árið 1999.

Ole Gunnar Solskjær, einn dáðasti leikmaður Manchester United fyrr og síðar, mun í dag tilkynna að hann hafi lagt knattspyrnuskóna á hilluna. Solskjær hefur ákveðið að vonlaust sé að yfirbuga hnémeiðsli sem hafa hrjáð hann í meira en fjögur ár.

Solskjær meiddist skömmu eftir að hann skoraði þriðja mark United í 5-0 sigri á Panathinaikos í september 2003. Síðan þá hefur hann aðeins leikið örfáa leiki. Hann virtist þó vera við það að ná sér á síðasta tímabili og átti nokkrar fínar innkomur í lið Manchester.

En júní kom síðasta áfallið. Verkir gerðu vart við sig í hnéi þegar Solskær var heima í Noregi við æfingar í júní og læknar gerðu honum það ljóst að hann þurfti í aðgerð. Það var sú síðasta á ferlinum og Solskær ákvað að nú væri komið nóg.

Talið er að Solskjær verði boðin þjálfarastaða hjá Manchester United auk þess sem hann muni þjóna sem eins konar sendiherra fyrir liðið um allan heim.

Ole Gunnar Solskjær skoraði árið 1999 eitt mikilvægasta mark í sögu Manchester United þegar hann tryggði liðinu sigur á Bayern Munchen í úrslitaleik meistardeildar Evrópu í Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×