Lífið

Dagbjört í Frostfiski búin að fá afreikningana

Breki Logason skrifar
Dagbjört Hannesdóttir hjá Frostfiski lenti í Capone bræðrum og Gillzenegger.
Dagbjört Hannesdóttir hjá Frostfiski lenti í Capone bræðrum og Gillzenegger.
„Þeir komu í pósti í gær," segir Dagbjört Hannesdóttir hjá Frostfiski í Þorlákshöfn um afreikningana sem hún var að bíða eftir frá fyrirtækinu Nastar.

Netverjar hafa legið í hláturskasti yfir símahrekk sem Capone bræður í samvinnu við Gillzenegger gerðu á útvarpsstöðinni Reykjavík FM í síðustu viku. 

Strákarnir voru með opinn símatíma þegar Dagbjört hringdi inn og hélt hún hefði náð sambandi við fyrirtækið Nastar. Strákarnir voru fljótir að grípa það á lofti og sendu hana síðan á milli sín í rúmar fimm mínútur. 

Hún var að reyna að fá afreikninga senda frá fyrirtækinu en endaði með því að skella á eftir að engin niðurstaða hafði fengist í málið.

„Auðvitað finnst mér þetta mjög fyndið en það er aldrei gaman að láta gera grín í sér. Sérstaklega ekki þegar þetta vindur svona upp á sig. Ég þori varla að hringja lengur úr vinnunni og kynna mig," segir Dagbjört mjög hress á því.

Hún segist ekki einu sinni hafa vitað að þessi útvarpsstöð væri til en veit þó hver Gillzenegger er.

„Ég veit hver hann er en hef nú ekkert verið að stúdera hann."

Dagbjört segist aldrei áður hafa hringt í Nastar og það var því ekki nema von að hún þekkti ekki raddirnar.

„Ég gat ekkert verið að æsa mig enda aldrei átt samskipti við þetta fyrirtæki áður. Ég hef reyndar talað við hana Unni einu sinni í síma en ég gat ekki farið að efast um að þetta væri hún," segir Dagbjört sem getur ekki annað en hlegið af þessari uppákomu.

Dagbjörtu finnst þó púkalegt að strákarnir hafi ekki hringt og tilkynnt henni að um símahrekk hefði verið að ræða.

„Ég fór til yfirmannsins og sagði þetta Nastar fyrirtæki vera stórfurðulegt. Hann náttúrulegaskyldi ekki neitt í neinu. Síðan sendi ég Unni póst og hún gat ekki svarað mér, þannig að þetta gat alveg passað allt saman."

Símahrekk Capone og Gillzenegger má hlusta á hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.