Blackburn heldur áfram að ná fínum úrslitum á útivelli í ensku úrvalsdeildinni og lagði Sunderland 2-1 úti í dag. Mark Hughes hafði þar betur gegn fyrrum félaga sínum Roy Keane í fyrsta einvígi þeirra sem stjórar í úrvalsdeildinni.
Fyrri hálfleikurinn í dag var vægast sagt leiðinlegur en þó vildu leikmenn Sunderland fá vítaspyrnu þegar þeim þótti hafa verið brotið á Michael Chopra innan teigs.
Mark Hughes ákvað að hafa þá Robbie Savage og Morten Gamst Pedersen og spilaði með Roque Santa Cruz einan í framlínunni. Hann þakkaði traustið og var maðurinn á bak við fyrsta markið frá David Bentley eftir átta mínútur í síðari hálfleik og skoraði svo sjálfur aðeins 90 sekúndum síðar.
Blackburn fékk tækifæri til að gera út um leikinn skömmu síðar en David Bentley fór þá illa með úrvalsfæri einn á móti markverðinum. Það var svo Grant Leadbitter sem gerði leikinn áhugaverðan í restina með marki úr þrumuskoti, en lengra komust heimamenn ekki.
"Við gáfum þeim tvö mörk og maður má ekki gera svoleiðis í úrvalsdeildinni. Þetta voru ódýr mörk og ég er vonsvikinn, því mér finnst í rauninni að við hefðum átt skilið að fá eitthvað út úr þessum leik," sagði Roy Keane, stjóri Sunderland.
"Ég gerði nokkrar breytingar á liðinu en það sýnir bara hvað við erum með öflugan hóp - að ná að koma til Sunderland og vinna. Ég vissi alltaf að Santa Cruz væri öflugur leikmaður. Hann var hjá Bayern í mörg ár og menn spila ekki þar nema vera úrvalsleikmenn. Við vorum heppnir að fá þessi tvö mörk strax eftir hlé og það vann leikinn fyrir okkur í raun og veru," sagði Mark Hughes.