Innlent

Sala á Hitaveitu Suðurnesja beinist ekki gegn Geysi Green Energy

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti í dag að selja Orkuveitu Reykjavíkur hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti í dag að selja Orkuveitu Reykjavíkur hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja. MYND/GVA

Ákvörðun Hafnafjarðarbæjar um að selja hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja til Orkuveitu Reykjavíkur beinist ekki gegn Geysi Green Energy efh. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bæjarráði Hafnarfjarðar. Í yfirlýsingu Grindavíkurkaupstaðar vegna sölunnar kemur fram að nú sé búið að eyða mikilli óvissu um hag minni hluthafa í hitaveitunni en að mati bæjarstjórnar var hætta á að þeir yrðu fyrir borð bornir eftir að ríkið seldi sinn hlut.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar og Grindavíkurkaupstaðar samþykktu einróma í dag að selja Orkuveitu Reykjavíkur nánast allt sitt hlutafé í Hitaveitu Suðurnesja. Þá samþykktu báðar bæjarstjórnir að nýta forkaupsrétt sinn á 15 prósent hlut ríkisins og selja Orkuveitunni síðan þá hluti.

Í yfirlýsingu frá bæjarráði Hafnarfjarðar kemur fram að með samninginum við Orkuveituna sé verið að tryggja stöðu Hafnarfjarðar og neytenda þar í bæ og að ákvörðunin beinist ekki gegn Geysi Green Energy ehf. Þá fagnar bæjarráðið yfirlýsingu bæjarstjóra Reykjanesbæjar um að Reykjanesbær muni ekki beita ráðandi hlut sínum til að koma í veg fyrir að Hafnarfjarðarbær geti eignast þriðjungshluta innan Hitaveitu Suðurnesja.

Í yfirlýsingu frá bæjarstjórn Grindavíkurkaupstaðar kemur fram að mikil óvissa hafi skapast um hag minni hluthafa í Hitaveitu Suðurnesja eftir að ríkið seldi sinn hlut. Að mati bæjarstjórnar var hætta á því að þeir yrðu fyrir borð bornir. Þá segir ennfremur í yfirlýsingunni að bæjarstjórn sé einhuga í þessu máli og telur hag minni sveitarfélaga sé vel borgið með þessari ráðstöfun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×