Innlent

Baugsmenn telja ummæli Valgerðar renna stoðum undir fullyrðingar sínar

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, telur að ummæli Valgerðar Sverrisdóttur renni stoðum undir fullyrðingar um að Baugsmálið eigi sér pólitískan uppruna. Valgerður sagði í blaðaviðtali að hún hefði upplifað hvernig sjálfstæðismenn töluðu um Baugsmenn og rannsaka þyrfti upphaf og tilurð málsins. Björn Bjarnason, dómsmálarðherra vill að fyrrverandi samráðherra hans í ríkisstjórn skýri mál sitt.

Viðtalið við Valgerði Sverrisdóttur, fyrrverandi ráðherra og varaformann Framsóknarflokksins, birtist í Viðskiptablaðinu síðastliðinn föstudag. Þar segir Valgerður mikilvægt að allir séu jafnir fyrir lögum og nú þegar sýnist sem svo að Jón Ásgeir verði jafnvel sýknaður í málinu þá hljóti dómsmálayfirvöld að rannsaka málið og upphaf þess. Hvert upphafið var og hvernig það varð til. Hún hafi sjálf upplifað hvernig sjálfstæðismenn töluðu um Baugsmenn en hátt hafi verið reitt til höggs. Valgerður vildi þó ekki útskýra hvaða sjálfstæðismenn hún var að tala um eða hvað þeir hafi verið að segja.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra furðar sig á ummælum Valgerðar og segist sjálfur ekki hafa rætt Baugsmenn í hennar návist. Dómsmálaráðherra segir þörf á að Valgerður útskýri ummæli sín betur.

Jón Ásgeir Jóhannesson, einn sakborninganna í málinu, tekur í sama streng og vill að Valgerður útskýri betur hvaða sjálfstæðismenn hún eigi við og í hverju ummælin fólust. Hann segir þau renna stoðum undir fullyrðingar um að Baugsmálið eigi sér pólitískan uppruna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×