Innlent

Flugumferðarstjórar samþykkja samkomulag

Frá fundi flugumferðarstjóra í dag.
Frá fundi flugumferðarstjóra í dag. MYND/Stöð 2

Flugumferðarstjórar samþykktu einróma á félagsfundi í dag heimila stjórn Félags íslenskra flugumferðarstjóra að undirrita samkomulag sem stjórn félagsins og Flugstoða ohf. höfðu komist að í gær. Því má reikna með að flugumferð komist aftur í eðlilegt horf yfir landinu en sérstök viðbúnaðaráætlun hefur verið í gildi frá áramótum vegna skorts á flugumferðarstjórum.

Fundur Félags flugumferðarstjóra hófst klukkan eitt í dag en lauk laust fyrir klukkan fjögur þegar samkomulagið var samþykkt en í því felst meðal annars flugumferðarstjórar fá sömu réttindi og þeir höfðu í starfi hjá Flugmálastjórn.

Sömuleiðis tryggir samkomulagið þeim flugumferðarstjórum sem hingað til hafa neitað að ráða sig til Flugstoða vinnu aftur og sagði Lofur Jóhannsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, að það væri í höndum hvers og eins félagsmanns að ákveða hvort hann vildi vinna hjá fyrirtækinu. Hann teldi þó líklegt að þeir myndu gera það.

Loftur sagði enn fremur að almenn sátt hefði verið á fundinum um samkomulagið enda hefði stjórn Félags íslenskra flugumferðarstjóra verið með skýrar línur um samningsatriði en jafnframt skilyrði um að samkomulag yrði borið undir félagsmenn. Á því steytti í viðræðum Flugstoða og flugumferðarstjóra í gærkvöld, en þá kröfðust Flugstoðir þess að undirskrift stjórnarmanna í Félagi íslenskra flugumferðarstjóra gilti skilyrðislaust án þess að samkomulagið yrði fyrst borið undir fund flugumferðarstjóra.

Loftur sagði að næsta skref væri að undirrita samkomulagið við Flugstoðir. Boltinn væri nú hjá Flugstoðum og hann biði sjálfur með pennann í hendinni eftir því að skrifa undir samkomulagið.

Flugstoðir ohf. tóku við flugleiðsöguþjónustu á íslenska flugstjórnarsvæðinu um áramót af Flugmálastjórn og hefur viðbragðsáætlun verið í gildi frá þeim tíma þar sem flugumferðarstjórar vantar í flugstjórnarmiðstöðina á Reykjavíkuflugvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×