Innlent

Tími litlu sætu þingmálanna

Einar Mar Þórðarson stjórnmálaskýrandi.
Einar Mar Þórðarson stjórnmálaskýrandi.

Einar Mar Þórðarson stjórnmálaskýrandi segir það vera mjög jákvætt að óbreyttir þingmenn fái að njóta sín í þinginu. Talsvert hefur borið á athyglisverðum fyrirspurnum þingmanna, þingsályktunartillögum og þingmannafrumvörpum frá því að þing hófst í haust.

Þingsályktunartillaga Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, sem felur í sér að ráðherrar fái nýtt starfsheiti sem bæði kynin geta borið, hefur vakið talsverða athygli. Hið sama er að segja um fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur til heilbrigðisráðherra um það hvort hann vilji breyta þeirri hefð sem skapast hefur á fæðingardeild Landspítalans að nýfædd börn séu klædd í bleika og bláa samfestinga. Kobrúnn vill að börnin séu klædd í liti sem ekki eru eins kynbundnir.

„Nú er tiltölulega nýlega búið að mynda ríkisstjórnina og stutt síðan þingið hófst. Ríkisstjórnin er því ekki komin með öll sín mál fram. Þar með skapast tækifæri fyrir óbreytta þingmenn að láta til sín taka," segir Einar Mar. Hann viðurkennir að þingmál Kolbrúnar og Steinunnar geti ef til vill talist léttvæg. „Svo þegar að nær líður jólum er líklegt að stærri mál verði meira áberandi. Það er til dæmis verið að vinna í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár. Það er ólíklegt að margt annað en það komist á dagskrá þegar nær dregur jólum," segir Einar.

„Að vísu er um að ræða þingsályktunartillögu og fyrirspurn í tilfelli Steinunnar Valdísar og Kolbrúnar og það er alltaf gert ráð fyrir þeim í dagskránni," segir Einar. „En ég get einnig nefnt áfengisfrumvarpið sem dæmi um þingmannafrumvarp. Það er búið að leggja það fram nokkrum sinnum á liðnum árum en aldrei hefur það fengið afgreiðslu. Ég tel mjög jákvætt ef það verður afgreitt nú," segir Einar Mar. Hann bendir á að ef málið verður fellt í atkvæðagreiðslu nú verði það varla lagt fram aftur í bráð. Það sem mestu máli skipti sé að fá fram afstöðu þingsins til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×