Enski boltinn

Sanchez lét dómara heyra það

NordicPhotos/GettyImages

Lawrie Sanchez, stjóri Fulham, gæti átt yfir höfði sér refsingu frá enska knattspyrnusambandinu eftir að hann lét þung orð falla um dómgæsluna í gær þegar hans menn duttu út úr enska deildarbikarnum.

Sanchez var æfur yfir því að hans menn fengju dæmt af sér mark í 2-1 tapi fyrir Bolton og vildi líka meina að sigurmark Bolton hefði verið ólöglegt.

"Þessir dómarar eru einfaldlega ekki nógu góðir til að dæma þessa leiki og það er kominn tími til að gera eitthvað í því. Þeir eru farnir að kosta okkur dýr stig viku eftir viku. Ég veit ekki hvort þeir halda að þeir geti komið til litla Fulham til þess eins og eiga náðugan dag - en mér finnst þetta fáránlegt," sagði fyrrum landsliðsþjálfari Norður-Íra.

Ekki er langt síðan Fulham var rænt stigi í ensku úrvalsdeildinni þegar fullkomlega löglegt jöfnunarmark var dæmt af liðinu í leik gegn Middlesbrough og nú er ljóst að Sanchez hefur fengið nóg af slíku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×