Aston Villa hefur tryggt sér enska landsliðsmarkvörðinn Scott Carson frá Liverpool á lánssamningi út tímabilið. Þar með hafði Aston Villa betur en Manchester City sem hafði mikinn áhuga á að fá markvörðinn í sínar raðir.
Carson hefur ekki náð að vinna sér inn sæti í byrjunarliði Liverpool síðan hann kom frá Leeds en hann eyddi síðasta tímabili hjá Charlton þar sem hann þótti standa sig mjög vel. Samningurinn er talinn kosta Aston Villa um tvær milljónir punda.
„Þetta er frábær samningur fyrir félagið," segir Gareth Barry, fyrirliði Aston Villa. „Scott hefur sannað sig í ensku úrvalsdeildinni og stóð sig frábærlega með Charlton á síðasta tímabili. Þetta er enn eitt dæmið um að Martin O´Neill (knattspyrnustjóri Aston Villa) sé á höttunum eftir góðum leikmönnum í allar stöður liðsins. Heilt tímabil undir stjórn Martin O´Neill getur aðeins gert honum gott."