Enski boltinn

Laug báðar ömmur sínar í gröfina

Stephen Ireland fær mjúkan pakka frá ömmum sínum um næstu jól
Stephen Ireland fær mjúkan pakka frá ömmum sínum um næstu jól NordicPhotos/GettyImages

Miðjumaðurinn Stephen Ireland hjá Manchester City og írska landsliðinu hefur beðist auðmjúklega afsökunar á að hafa dregið þjóð sína og knattspyrnufélag á asnaeyrunum svo dögum skipti í vikunni. Ireland laug því að báðar ömmur hans væru dauðar til að sleppa frá Slóvakíu þar sem hann var með landsliðinu.

Ireland flaug frá Slóvakíu og heim til Írlands með einkaflugvél í boði írska knattspyrnusambandsins á sunnudaginn eftir að hafa sagt forráðamönnum liðsins að amma hans hefði dáið. Það var þó unnusta Ireland sem ýtti úr vör með lygasögurnar eftir að hún missti fóstur.

Kærastan sagði Ireland að hún þyrfti á honum að halda eftir áfallið og ráðlagði honum að segja ömmusöguna til að sleppa frá Slóvakíu og heim til Írlands. Knattspyrnusambandið grennslaðist fyrir um málið og komst að því að móðuramma hans á Írlandi var sprelllifandi. Ireland var beðinn um að svara fyrir þetta á mánudagsmorguninn, en hann laug því þá að það hefði verið föðuramma hans í London sem hefði dáið. Forráðamenn Manchester City komust svo að því á þriðjudeginum að föðuramman var jafnlifandi og móðuramman og því ákvað Ireland að lokum að segja sannleikann.

Hann hefur nú beðist auðmjúklega afsökunar á öllu saman og á eflaust eftir að þurfa að svara fyrir þessar skrautlegu sögur í næsta fjölskylduboði. "Ég geri mér grein fyrir því að þetta var ósmekklegt hjá mér og mig langar að biðja alla sem að málinu komu afsökunar. Mér þykir fyrir þessu og geri mér grein fyrir því að orð mín hafa eflaust valdið særindum og hugarangri hjá mörgum," sagði Ireland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×