Enski boltinn

Eggert óánægður með vinnubrögð Newcastle

Aron Örn Þórarinsson skrifar
Eggert Magnússon skilur ekkert í vinnubrögðum Newcastle.
Eggert Magnússon skilur ekkert í vinnubrögðum Newcastle. NordicPhotos/GettyImages

Eggert Magnússon, stjórnarformaður West Ham, hefur greint frá óánægju sinni með vinnubrögð Newcastle eftir að félagið hætti við að selja Kieron Dyer til West Ham á síðustu stundu nema kaupverðið yrði hækkað um tvær milljónir punda. Eggert segist furðu lostinn yfir því að Newcastle hafi hækkað verðið á síðustu stundu.

„Newcastle hafði gefið okkur leyfi til að ræða við leikmanninn, hann hafði gengist undir læknisskoðun hjá okkur og við vorum búnir að ná samkomulagi um kaupverð þegar þeir hringja og segjast vilja fá meira fyrir leikmanninn," sagði Eggert. „Við trúðum þessu ekki. Ég vorkenni leikmanninum, hann vildi koma til að vera nær fjölskyldu sinni."

Eggert segir það vera mögulegt að félagið eigi eftir að fjárfesta í fleiri leikmönnum áður en leikmannaglugginn lokar. „Ég held að þetta mál sýni að við erum ekki tilbúnir til að greiða hvað sem er fyrir leikmenn. Ef einhverjir halda það þá er það rangt. Við höfum metnað til að koma liðinu í meistaradeildina á komandi árum og því verðum við að eyða peningum, það gerist ekki öðruvísi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×