Innlent

Líkamsárás á tjaldstæði á Akranesi

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Hópur manna gekk í skrokk á tveimur öryggisvörðum á tjaldstæðunum á Akranesi í nótt með þeim afleiðingum að annar rifbeinsbrotnaði. Mikil ölvun og erill var í bænum auk fjölda slagsmála. Íbúi á svæðinu segir ástandið hafa veirð eins og í dýragarði.

Öryggisverðirnir tveir komu að slagsmálum á tjaldstæðinu í nótt og ætluðu að leysa þau upp. Fjórmenningarnir sem slógust réðust þá að þeim með barsmíðum og spörkum og linntu ekki látum fyrr en annar mannanna rifbeinsbrotnaði. Lögregla og björgunarsveit komu á vettvang og hinn slasaði var fluttur á sjúkrahús. Hinn öryggisvörðurinn hlaut minni meiðsl.

Að sögn vitna hafði árásarmönnunum verið sleppt úr haldi lögreglu eftir aðra líkamsárás fyrr um kvöldið. Lögreglan á Akranesi gat ekki staðfest þær upplýsingar.

Ein líkamsárás hefur verið kærð eftir nóttina og býst varðstjóri við að fleiri kærur berist í dag.

Mikil ólæti hafa verið í bænum í tengslum við írska daga, en mest hefur ónæðið verið á tjaldstæði bæjarins.

Íbúar sem fréttastofa talaði við segja ástandið hafa verið skelfilegt í nótt. Nú er rólegra í bænum og leikjadagur stendur yfir, en írsku dögunum lýkur í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×